« Prófið búið | Aðalsíða | Af hverju múslimi? »

Mánudagur 28. maí 2007

Camera obscura

Ég er að byrja að lesa ljósmyndasöguna en ég tek þrjá áfanga í ljósmyndanáminu á sumarönninni sem hefst 21. júní þ.e. ljósmyndasögu, vinnslu stafrænna ljósmynda og eðli ljósmynda. Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um "camera obscura" eða svarta herbergið. Ég er núna að reyna að skilja það til hlítar en á eftir eitthvað. Hvað um það eins og með ótrúlega margt þá var það Leonardo da Vinci sem skilgreindi camera obscura en árið 1490 skrifar hann um það í tæplega 1500 síðna riti sínu Atlantic Codex. En hinsvegar er því haldið fram á Wikipedia að múslimski fræðimaðurinn Abu Ali Al-Hasan hafi lýst fyrirbærinu fyrst einhversstaðar í kringum árið 1000. Mér datt í hug hvort da Vinci hafi e.t.v. ekki fundið allt upp sjálfur sem hann skrifaði heldur grúskað í arabískum gögnum en það skiptir kannski ekki mestu hver var fyrstur heldur að fyrirbærið sé til.


Um er að ræða svart rými t.d. skúr með gati og í gegnum gatið kom á hvolfi það sem var fyrir utan ef ég skil þetta rétt. Málarar voru hrifnir af fyrirbærinu því þá gátu þeir fengið rétt hlutföll í myndirnar sínar, rissað upp eftir myndinni og klárað síðar. En vandinn var að varðveita myndina hún var bara á veggnum og hvarf ef gatinu var lokað. Ég verð nú að viðurkenna að mér þætti dálítið kúl að vera í svörtum skúr með mynd á vegg en þessi fyrirbæri eru enn til.

Nema hvað menn bjuggu til kassa sem var byggður á þessum skilgreiningum og síðar tókst frönskum eðlisfræðingi Niépce að varðveita mynd sem hann tók út um gluggann á vinnustofunni sinni með held ég 8 klukkustunda lýsingartíma sem hann gerði 1816 og er talin fyrsta ljósmyndin. Gögnum sem ég er með ber ekki alveg saman en þá trúir maður skólabókinni sinni sem að vísu gerir bandarískum ljósmyndurum hærra undir höfði en evrópska efnið. En þegar maður er í bandarískum háskóla þá er það skiljanlegt enda ræðum við um íslenskan veruleika í íslenskum háskólum og hví skyldu þeir vera öðruvísi.

Hinsvegar fannst mér bráðmerkilegt að það var sú staðreynd að silfur dökknar í dagsljósi sem leysti gátuna fyrir Niépce. Efnablandan sem hann notaði til að gera fyrstu myndina var einmitt með silfri. Þó ég hafi löngum pússað silfur, pakkað því inn og falið í myrkri þegar ég var lítil stúlka þá hafði mér ekki hugkvæmst þessi möguleiki. En myndin hvarf aftur í ljósinu þar sem ljósið hélt áfram að dekkja efnablönduna en þar með var fyrsta skrefið stigið. Hér er stutt myndband af þessu ferli þar sem myndin er tekin út um gluggann alveg eins og Niépce gerði. Þetta fyrirbæri er kallað retinas. Sem væri nú gaman að vita hvað þýddi - finn það út. En annars er best að halda áfram að lesa.

kl. |Ljósmyndun

Álit (2)

Á eftirfarandi síðu má sjá stórgott safn ljósmynda teknum með Pinhole kössum. Þar má einnig finna upplýsingar um hvernig maður býr sjálfur til myndavél með frekar einföldum hætti.

Ótrúlega skemmtilegar myndir sem koma úr þessu.

http://www.pinhole.org/gallery/index.cfm

Mánudagur 28. maí 2007 kl. 10:37

Kærar þakkir fyrir þetta Baldur. Grufla í þessu. En til gamans má segja frá því að væntanlegur kennari minn í ljósmyndasögu er upptekin af Pinhole kössum og sýnir þær myndir á heimasíðunni sinni.

http://www.alysonbelcher.com/

Mánudagur 28. maí 2007 kl. 12:09

Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.