Ég hef alltaf gaman af því að fara á 1. maí hátíðarhöldin á Akureyri. Ganga um bæinn með lúðrasveit og hugsa um það sem skiptir máli. Svo var einnig framan af fundi í gær, ég hafði ánægju af ræðu Örnu Jakobínu Björnsdóttur formanni Kjalar, sem ég vildi gjarnan sjá á heimasíðu félagsins, sem og Soffíu Gísladóttur framkvæmdastjóra Kjalar sem ræddi raunhæfnismat þ.e. að fólk geti látið meta þekkingu sína til náms enda hafi það staðist ákveðið mat. Þarna er ekki um gjaldfellingu á námi að ræða heldur getur einstaklingur sem hefur menntað sig sjálfur fengið þá menntun metna. Þetta er mikið framfaraspor og ánægjulegt að það verður mögulegt að fá slíkt mat hér á Akureyri með haustinu. Báðar töluðu þær Arna Jakobína og Soffía vel til fólksins í Sjallanum sem var stútfullur af fólki. Síðan kom að alþingismanni Vinstri grænna og frambjóðanda í kosningum eftir tólf daga, en hann þrumaði yfir fólki við háa raust vel rúman hálftíma. Ýmislegt var gott í ræðu alþingismannsins sem var þarna sem fulltrúi launafólks í BSRB enda ríkisstarfsmaður og formaður félagsins. Maðurinn kemur afar vel fyrir sig orði og talaði annarsvegar um baráttumál launafólks og hinsvegar predikaði hann svo hver prestur hefði verið fullsæmdur af. Dálítið ofsafengin orðræða - en stundum skemmtileg líka ef maður gætir þess að hafa í huga hver talar. Ræðan er í heild sinni hér.
Ögmundur sagði m.a.: "Ríkasta þjóð heims verður að halda niðri í sér andanum og vona að milljarðamæringarnir gleymi okkur ekki í áformum sínum. Fyrtist ekki við heimtufrekju okkar og fari ekki í fússi ef við ákveðum að brjóta okkur leið að gnægtaborðinu, rétt eins og þeir. Ef græðgin er góð, hvers vegna gildir það ekki fyrir alla?
Eða er þetta bara barnaævintýri til að hræða börnin til hlýðni. Ef þið sýnið græðgi einsog við, þá tapast allt. Þetta stendur svo tæpt."
og síðar:
"Sá sem telur peninga verður ósjálfrátt grunaður um að gera allt fyrir peninga, sagði Benjamin Franklin fyrir 300 árum síðan. Og það má bæta við motttói kapítalistans: Ef ég þarf að eyðileggja náttúruna til að verða ríkur, þá auðvitað geri ég það. Ef ég þarf að halda fólki á lágum launum, þá geri ég það.
Þekkt er sagan af froskinum og sporðdrekanum sem sátu við árbakkann. Sporðdrekinn bað froskinn um far en froskurinn taldi það hættuspil fyrir sig. “Hví skyldi ég stinga þig”, sagði sporðdrekinn, “þá myndum við báðir deyja”? Satt er það sagði froskurinn og lagði til sunds með sporðdrekann á bakinu. Í miðri ánni, fann froskurinn skerandi sting í bakinu. Sporðdrekinn hafði stungið hann dauðastungu. “Hvers vegna gerðirðu þetta” sagði froskurinn, “nú munum við báðir deyja”? “Ég get ekki annað”, sagði sporðdrekinn, “þetta er mitt eðli”. Auðmenn gera sitt gagn í samhengi hlutanna. En við skulum muna að flytja engan þeirra yfir ána án þess að hafa vara á okkur.
Sumir hugsa bara um sig. Það kann að hafa sitt gildi. En það er óþarfi að dýrka þá hugsun. "
Í ræðu Ögmundar var einnig sneið á starfsmenn HA þar sem hann segir "Mannlegt eðli er margþætt – rétt eins og frelsið. Kannski er lífið flókið bæði fyrir frjálshyggjuprófessora í Reykjavík og heimspekiprófessora á Akureyri sem telja græðgi vera dygð. Það er auðvitað athyglisvert að velta slíku fyrir sér á góðum launum. "
Ég velti fyrir mér hvor er á betri launum, heimspekiprófessor á Akureyri eða Alþingismaður í höfuðborginni.
Síðar sagði Ögmundur:
". Látum ekki sölumenn óttans ná valdi yfir okkur. Látum ekki málaliða auðvaldsins kasta ryki í augu okkar. Við erum ekki aukaleikarar í ævisögu auðmannanna. Við erum ekki “extras”. "
Það má margt segja um hina ríku Íslendinga og þá sem vilja vera ríkir en það er erfitt að steypa þeim öllum í sama mót. Rétt er að ríkisstjórnin hefur í mörgu verið í þjónustu auðmanna Íslands og reyndar skapað suma þeirra sjálf. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti pólitískri ræðu á 1. maí en mér finnst hinsvegar staðfastlega að frambjóðandi og alþingismaður sé að sigla undir skrýtnu flaggi, þó hann sé formaður BSRB þá tel ég að það eigi að vera skýrt að hér er um alþingismann að ræða og frambjóðanda Vinstri grænna.
Liðinn er sá tími sem hægt er að gefa sitt álit. Hafðu samband ef þú vilt koma einhverju á framfæri