Var bent á skemmtilega grein þar sem nemendur voru látnir prófa nýja fartölvu. Verkefnið heitir One Laptop Per Child (OLPC) þar sem markmiðið er að útbúa sérstaka tölvu fyrir börn. Aðal hvatamaðurinn er Nicholas Negroponte sem horfir m.a. til skrifa Seymour Papert sem hafði mikla trú á því hvernig mætti nota tölvur í námi og kennslu. Ég hef haft mikla trú á þeim hugmyndum og vonaðist til að þær myndu ná árangri. Því miður hefur okkur ekki borið gæfa til að ná almennri tölvunotkun inn í nám og kennslu, þær eru enn yfirleitt í sérstökum þróunarverkefnum eða fylgja frumkvöðlum eða öðru sem mætti skilgreina sem sér. Sumir hafa náð feykigóðum árangri en ekki er hægt að segja að menntakerfið í heild sinni hafi náð þeim árangri að tölvur séu markvisst verkfæri í námi nemenda. Reyndar hefur verið býsna strembið fyrir sveitarfélög að ná því markmiði að kennarar hafi fartölvu hvað þá að vinna markvisst að notkun þeirra í skólanum. Helst hafa menn haft áhuga á að kennarar fái betri verkfæri til skriffinsku af ýmsum toga s.s. mætinga, samskipta við foreldra eða öðru því sem tengist utanumhaldi um nám. Ef til vill verður þetta verkefni til þess að þetta breytist.