Í dag kl. 14:00 opna ég sýningu mína Himinn og jörð í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Hugmynd að verkefninu himinn og jörð vaknaði þegar ég var að fara í starfsviðtal til Ólafsfjarðar í janúar 2010. Ég staldraði við í Múlanum og þar blasti Grímsey við en þangað hafði ég komið og notið þess að skoða fallegt landslagið heimsækja góða vini og njóta. En frá Múlanum séð var Grímsey lítill blettur á sjóndeildarhingnum og svo ógnarlítill hluti veraldarinnar á sama tíma og hún er land þeirra sem búa þar og starfa. Sjálf stóð ég að því er mér fannst hátt uppi í Múlanum en vissi að Múlinn er ógnarsmár séður frá Grímsey. Það sem eftir lifði ársins kannaði ég með myndavélinni samhengi himins og jarðar víða á landinu. Staðirnir eru til þó ég sé ekki þar, þeir eru þeim stórir sem búa þar eða horfa upp á þá en þeim smáir sem langt eru frá. Jafnvel hæstu fjöll verða smá allt eftir því hvernig horft er á þau og þá sérstaklega í samhengi við himininn.
Segja má að þessi ljósmyndasería sé óður til himins og jarðar en á sama tíma áminning um að þau viðfangsefni sem virðast okkur stór í núinu eru ef til vill smá þegar við fjarlægjumst þau.