Dreifnám í Menntaskólanum á Akureyri vorönn 2002
Verkefni styrkt úr
þróunarsjóði framhaldsskóla
af menntamálaráðuneytinu
Verkefnisstjóri og
höfundur skýrslu: Lára Stefánsdóttir, verkefnisstjóri.
lara@lara.is
Markmið dreifnámsverkefnisins var að kanna forsendur þess að taka upp dreifnám sem þátt í skólastarfi í Menntaskólans á Akureyri. Gerð var tilraun með dreifnám í nokkrum áföngum í íslensku, þýsku og sögu með nemendum á fyrsta, öðru og fjórða námsári. Fyrir þá sem vilja sjá niðurstöður án þess að lesa alla skýrsluna má benda á að þær eru dregnar saman í lokin.
Áhugi vaknaði á því að gera þessa tilraun vegna stefnu menntamálaráðuneytisins eins og hún birtist í bæklingnum “Forskot til framtíðar – Verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins í rafrænni menntun 2001-2003” Þar segir:
Framtíðarsýn menntamálaráðuneytisins felst í því að nýta kosti Netsins sem
upplýsingaveitu fyrir skólastarf. Þar verði námsefni miðlað markvisst og samskiptum komið á milli nemenda, kennara, skólastjórnenda, foreldra, atvinnurekenda, og allra sem tengjast menntun. Í þessari sýn felst að hefðbundnir kennsluhættir þróist yfir í það sem kalla má dreifmenntun og nemendur stundi þá nám í dreifskólum.
Dreifskóli er stofnun sem krefst ekki nauðsynlega hefðbundinna bygginga, er ekki með fasta stundatöflu og þar eru kennarar og nemendur ekki alltaf samtímis á sama stað. Í þessum skóla er nemandinn miðpunktur og sækir nám sitt eftir ýmsum leiðum og úr ólíkum áttum. Í dreifskóla er ekki gerður greinarmunur á staðbundinni kennslu og fjarkennslu heldur tvinnast þessir kennsluhættir saman í dreifkennslu þar sem jöfnum höndum er notuð hefðbundin kennsla og þekkingu miðlað með notkun Netsins. Þannig getur nemandi stundað dreifnám við einn skóla eða marga í senn, verið í staðbundnu námi og fjarnámi eða blöndu af þessu tvennu. Hann getur sótt stærstan hluta af námi sínu í staðbundnum skóla sem notar ýmist staðbundna kennsluhætti eða fjarkennslu í ákveðnum þáttum námsins. Aðra hluta námsins sækir hann í fjarkennslu frá einhverjum tilteknum skólum eða frá dreifskólanum sjálfum. (Menntamálaráðuneytið bls. 1)
Ljóst er að ef þessi framtíðarsýn verður að veruleika þá krefst slíkt mikils undirbúnings, námsefnisgerðar, símenntunar kennara, viðhorfsbreytinga og skipulagsbreytinga. Því er mikilvægt að gera tilraunir sem gefa upplýsingar um hvernig mætti hátta til slíkum breytingum enda segir í stefnu ráðuneytisins:
Styðja þarf við það hlutverk kennarans að vera leiðbeinandi og ráðgefandi fyrir nemendur um þekkingarleiðir. Stuðla þarf að sjálfstæði nemenda um samsetningu og skipulag náms síns og sveigjanleika varðandi námsval, námshraða og námshætti. (Menntamálaráðuneyti. 2002. Bls. 2)
Menntamálaráðuneytið hefur leitast við að styðja við frumkvæði á þessu
sviði, enda telur það mikilvægt að skólar hafi tækifæri til að móta aðferðir við
dreifkennslu. (Menntamálaráðuneyti. 2002. Bls. 6)
Má telja líklegt að þetta verkefni hafi fengið styrk úr þróunarsjóði menntamálaráðuneytisins einmitt vegna þess að ráðuneytið vill fá upplýsingar um hvernig gengur að dreifkenna í framhaldsskólum.
Bakgrunnur
Í upphafi voru lagðar fyrir nokkrar spurningar sem leitast skyldi við að svara í verkefninu en þær voru.
Fjórir kennarar tóku þátt í verkefninu auk verkefnisstjóra en verkefnið fór fram að mestu leyti á vorönn 2002 utan undirbúningsvinnu sem fór fram á haustönn 2001. Verkefnisstjóri fór í launalaust leyfi við annarskiptin en starfaði áfram við þetta verkefni til loka skólaársins.
Þátttakendur:
q Lára Stefánsdóttir, verkefnisstjóri
q Björn Vigfússon, kennari, SAG203 í fartölvubekk á öðru ári, 2 kennslustundir af 6 voru settar í fjarkennslu. Smáar tilraunir í fartölvubekk á fjórða ári.
q Sigríður Steinbjörnsdóttir, kennari, ÍSL303 í fartölvubekk á öðru ári, 2 kennslustundir af 6 voru settar í fjarkennslu.
q Sigrún Aðalgeirsdóttir, kennari, ÞÝS302 í fartölvubekk á öðru ári, 1 tími af 4 var í fjarnámi en 3 í staðbundnu.
q Sverrir Páll Erlendsson, kennari, ÍSL732 valáfangi á 4ári, 2 tímar af 6 voru í fjarnámi en 4 í staðbundu. Lítil tímabundin tilraun í ÍSL203 í fartölvubekk á fyrsta ári.
Ákveðið var að gera tilraunina í þremur áföngum í fartölvubekk á öðru ári bæði vegna þess stöðuga aðgengi sem nemendur höfðu að tölvum og dreifa tilrauninni ekki um of. Einnig var gerð tilraun með nemendahóp í valáfanga á fjórða ári sem hafði almennt ekki fartölvur og í litlum mæli í fartölvubekk á fyrsta ári.
Aðferðafræði
Segja má að hér sé um að ræða litla tilviksrannsókn (case study) með eigindlegum aðferðum. Eitt markmið tilviksrannsókna er að skoða ákveðið fyrirbæri í skólastarfi með það fyrir augum að nýta þekkinguna til að bæta eða breyta. Þær eru oft mjög afmarkaðar eins og hér á við þar sem einungis er horft á breytingu á skipulagi eða s.k. dreifmenntun og hvaða áhrif hún hefur í þeim tilfellum sem er verið að skoða í eina önn. Slíkt er auðvitað takmarkað enda segir einn kennarinn “Ég hef aldrei kennt sama áfangann oftar en einu sinni í dreifnámi. Mig grunar sterklega að strax í annað sinn sem áfangi er kenndur með þessum hætti kæmi í ljós hagræði og einhver vinnusparnaður.”
Ákjósanlegt væri að halda dreifmenntarverkefni markvisst áfram til að sjá frekari reynslu af dreifmennt til að draga almennar ályktanir af hvernig dreifmennt reynist í námi og kennslu í framhaldsskóla. Þessi skýrsla er byggð á reynslu þeirra fjögurra kennara sem tóku þátt í verkefninu, verkefnisstjóra og nemendum eins bekkjar sem tók mestan þátt í tilrauninni. Verkefnisstjóri er höfundur skýrslunnar og því eru niðurstöður túlkaðar í því ljósi sem hann sér það sem er gert, sagt, rætt og ritað af þeim sem tóku þátt í verkefninu. Lesandinn er því eindregið varaður við að draga almennar ályktanir, yfirfæra yfir á framhaldsskólanám í heild eða túlka þessa skýrslu á annan hátt heldur en að hún endurspegli reynslu af dreifmenntarverkefni í Menntaskólanum á Akureyri á vorönn 2002 hjá þeim kennurum og hluta nemenda sem tóku þátt í verkefninu og síðan rituð í því ljósi sem verkefnisstjóri sér viðfangsefnið. Þegar ritað er “kennarar” er vísað til kennaranna fjögurra og þegar vísað er til “nemenda” er vísað til nemenda í fartölvubekk á öðru ári.
Réttmæti (validity) í tilviksrannsókn fjallar um að reynt er að lýsa með sem trúverðugustum hætti upplýsingum úr þeim gögnum sem safnað er. Þetta er reynt að tryggja með því að fá skoðanir bæði kennaranna sem tóku þátt í verkefninu í skýrslum og umræðum á fundum. Sem og skoðanir þeirra nemenda sem voru í fartölvubekk annars árs sem fékk mesta reynslu af dreifkennslu og námi.
Gerð verður grein fyrir hverri spurningu hér fyrir ofan og hvernig kennarar og nemendur bregðast við þeim í ljósi reynslunnar. Í lokin er reynt að draga saman hvað hefur verið gert, hver reynslan hefur verið og hvernig best væri að halda áfram. Skýrsluhöfundur vonast til að skýrslan gefi þeim sem hyggja á dreifkennslu eða dreifnám upplýsingar um hvernig dreifnám gekk fyrir sig í þessu verkefni.
Skipulag
Kennarar fengu algerlega óbundnar hendur um hvernig þeir skilgreindu dreifkennsluna og hvaða aðferðum þeir beittu. Þetta gagnrýndi hluti þeirra og taldi að verkefnisstjóri ætti að gefa skýran ramma um hvað ætti að gera og kennaranna síðan að fylla út í rammann. Vegna þessa fóru þeir ýmsar leiðir. Þeir útskýra fyrir nemendum hvernig þeir ætla að skipuleggja dreifnámið hér eru dæmi:
Þessi áfangi er dreifnámsáfangi. Það þýðir að ekki eru allar kennslustundir að baki áfangans bundnar kennslustofu. Þegar á heildina er litið er sem næst þriðjungur kennslustunda í kennslustofu (fyrirlestrar, kynningar o.s.frv. u.þ.b. 2 tímar vikulega) en tveir þriðju hlutar eru vinnutími, verkefnatími nemandans eftir tíma og hentugleikum hans sjálfs. Í stað þessara stunda hefur kennari viðtalstíma eftir samkomulagi við nemendur og/eða rækir samband við þá með tölvupósti, SMS skilaboðum eða spjallrásum á borð við MSN. Verkefni eru vikuleg og þeim er skylt að skila og gilda þau öll til einkunnar í hlutfalli við umfang.
Verkefnum skila nemendur með ýmsu móti. Vefsíður, veggspjöld, fyrirlestrar, upplestur, samfelld dagskrá, upplestur/leikur á segulbandi eða myndbandi, geisladiskar, margmiðlun o.s.frv. Rituðum verkefnum og greinargerðum og lýsingum á öðrum er öllum skilað tölvurituðum í tölvupósti. Nemendur halda utan um verkefni sín og safna þeim öllum í vinnubók (möppu eða vefsvæði). Nemendur geta fengið vefsvæði einir eða í hóp/hópum til að birta verk sín.
Verkfæri
Kennararnir notuðu ýmsan hugbúnað í dreifkennslunni þar má nefna:
q FrontPage™ og DreamWeaver™ til vefsíðugerðar bæði nemenda og kennara
q HotPotaotes™ fyrir gagnvirkar æfingar
q WebCT™ fyrir heildstætt námsumhverfi, gagnvirk próf og æfingar
q response.is til að gera próf og nýta í WebCT™
q PowerPoint™ til að tala inn á fyrirlestra og nemendur geri glærur
q SMS smáskilaboð í farsíma
q Vefleiðangra með verkefnum og viðfangsefnum
q Netið til upplýsingaöflunar bæði fyrir nemendur og kennara.
Skiptir aldur nemenda máli þ.e. í hvaða bekk þeir eru?
Kennarar töldu aldur nemenda skipta máli þó sumir þeirra drægju í efa að aldur ákvarðaði einn hvernig dreifmenntun hentaði nemendum. Þeir töldu að öguð vinnubrögð nemenda skiptu mestu, þekking á því að stunda dreifnám og að líklegra væri að með auknum aldri hefðu nemendur tamið sér agaðri vinnubrögð. Einn þeirra sem hafði reynslu af dreifmennt bæði í öðrum og fjórða bekk segir: “Ég sé ekki að það skipti öllu máli í hvaða bekk nemendur eru. Aldur þeirra kemur ekki í veg fyrir kosti dreifnáms og hindrar ekki galla þess.” Annar kennaranna segir “Reyndar er ég viss um að það er ekki aldurinn sem skiptir máli í þessu tilfelli heldur hversu vel þeir þekkja skólann og kröfurnar sem gerðar eru.” Hér má telja líklegt að kennarinn telji að eftir fyrsta skólaárið þá sé nemandinn kominn með þessa þekkingu og jafnvel við annarskipti á fyrsta ári. Þriðji kennarinn segir “Reynsla mín af þessari kennslu er sú að aldur nemenda skipti máli þegar dreifnám er skipulagt. Þetta gengur ekki upp nema nemendur axli aukna ábyrgð á vinnu sinni því um leið og námið flyst úr kennslustundum er freistandi fyrir þá sem öllu fresta til morguns að gera það úr hófi. Ég tel dreifmennt eftirsóknarverðan kost fyrir nemendur í 3. og 4. bekk.” Sá fjórði sem hafði reynslu af fyrsta og fjórða bekk sagði sem svar við spurningunni: “Já. Mér fannst munur á því. Enda þótt einhverjir [nemendur 4 ársins] gerðu mistök var greinilegt að nemendum 1. bekkjar var mjög erfitt að vinna undir eigin stjórn. Strax og ég kom inn í málið aftur og stjórnaði vinnu þeirra smellgekk þetta og árangur þeirra varð á endanum góður.”
Þarf að þjálfa upp sérstök vinnubrögð með nemendum til að þeir geti nýtt sér dreifnám markvisst í námi sínu?
Nemendur þurftu sjálfir að bera ábyrgð á námi í tengslum við þær kennslustundir sem voru ekki í stundatöflu. Þannig sögðu kennararnir að nemendur “kvörtuðu” undan meira heimanámi enda gert ráð fyrir að þeir skiluðu þeirri vinnu sem átti að fara fram í kennslustundum sem var sleppt. Að þeirra mati virtust nemendur ekki sjá samhengi milli þess að ef kennslustund væri ekki á ákveðnum tíma í ákveðinni kennslustofu þá þýddi það að þeir þyrftu að vinna sömu vinnu en gætu sjálfir ákveðið hvenær og hvar. Kennararnir virtust fremur upplifa að nemendur lýstu dreifnámi sem “auknu vinnuálagi”.
Kennarar voru allir sammála því að kenna þyrfti nemendum markvisst sjálfstæð vinnubrögð til að stunda dreifnám og taka ábyrgð á námi sínu. Einn kennari segir “Út á það gengur meginhugmyndin,- að nemandinn geti, með hjálp nýrrar tækni og nýrra viðhorfa, á eigin vegum menntað sig.” Annar kennari segir: “Afmörkuð markmið, skýr skilaboð um kröfur og vinnutilhögun og greiður aðgangur að tölvum og kennsluefni á vef er í mínum huga forsendur fyrir því að nemendur nýti sér dreifnám á markvissan hátt.” Sá þriðji segir “Það þarf fyrst og fremst að gera nemendum vel grein fyrir því hvað felst í dreifnámi í þessum skóla og í hverju fagi fyrir sig svo að þau temji sér æskileg vinnubrögð og verði ekki fyrir vonbrigðum ef dreifnámið stenst ekki væntingar þeirra. Setja ákveðnar reglur um verkefnaskil, póst o.þ.h.”
Einn nemandi segir “Mörg fög eru þannig að það skiptir ekki öllu máli að mæta í tímana. Það væri alveg eins hægt að hafa meira dreifnám. Eins og í sögu, ég mundi ekkert tapa svo mikið á því að mæta bara í örfáa tíma og fá kannski glósurnar sendar. Og í íslensku, þá eru verkefnin sem við fáum mjög oft á netinu og ef svörin eru það líka þá þarf maður ekki að mæta jafn mikið í tíma. Sumir gera þá kannski ekkert verkefnin en það kemur þá í sama stað niður og að fylgjast ekki með í tímum. Og það að geta nálgast efnið á netinu gerir það að verkum að maður hefur val hvenær (hvort) maður gerir verkefnin og jafnvel bara náð í þetta og lesið fyrir próf. Auðvitað á ekki að gera þetta þannig en þó nemendur mæti í tíma þá er samt alls ekkert endilega lært meira.” Þetta er mikilvægt að hafa í huga, nemendur eru ekki alltaf að fylgjast með í tímum eða að gera verkefni sín þó það sé auðvitað það sem ætlast er til. Jafnvel getur verið að aðhald við nemendur í dreifnámi sé meira en í staðbundnu námi því kennarar eru meira að fylgjast með hvort nemendur hafi unnið þá vinnu sem ætlast er til af þeim í þeim kennslustundum sem eru í fjarnámi heldur en staðbundnum kennslustundum.
Þó nokkuð var rætt í hópnum hvort segja ætti ákveðnar vinnureglur og leiðbeiningar um vinnubrögð og voru menn sammála því að slíkt væri nauðsynlegt. Nýta þá reynslu sem fengist hefði til að móta reglur sem aðrir kennarar gætu farið eftir og nemendur notað til hliðsjónar þegar þeir færu að stunda dreifnám. Nemendur virtust sáttir við þá reglu að þeir fengu fjarvist í fjartímunum ef þeir hefðu ekki gert verkefnin sín einn segir “Það er reyndar nokkuð sniðugt eins og er að ef það kemst upp að við höfum ekki lært fáum við fjarvist. Það þarf eiginlega að vera þannig, held ég. Það eru svo margir sem þurfa þennan aga.”
Hvaða áhrif hefur dreifnám á starf kennarans. Þarf kennari að útbúa meira námsefni en ella? Hvaða áhrif hefur dreifkennsla á vinnuálag kennarans?
Allir kennararnir voru sammála um að dreifnám hefði mikil áhrif á starf kennarans og að vinnuálag ykist heilmikið án þess að skilgreint væri hversu mikið. Sumir þeirra bentu á að þar sem þau hafi einungis kennt áfangann einu sinni þá sé ekki hægt að meta hvort og þá hvernig efnið nýttist þegar áfangi væri kenndur aftur.
Kennarar tala um að í dreifkennslu sé meiri einkakennsla í formi tölvusamskipta. Einn þeirra segir “Dreifkennsla hefur meira áreiti í för með sér fyrir kennarann en venjuleg kennsla. Það stafar af mun meiri námsefnisgerð en ella og hann þarf að byggja samskipti sín á tölvupósti meira en umræðum í tíma.” Annar segir “Undirbúningsvinna var miklu meiri, bæði fyrir kennslustundir og við að útbúa verkefni og einnig fór mikill tími í að svara bréfum nemenda og fara yfir verkefni þegar það átti við en oft þurftu nemendur bara að gera grein fyrir hvernig þeim gekk við að leysa gagnvirk [verkefni].” Annar kennari lýsir þessu þannig að áhrifin hafi verið “Mikil. Meðal annars verður kennslan meiri einstaklingskennsla. Þegar svörun nemenda er lítil er kennari mjög órór og í vafa um að boð hans hafi komist til skila og þetta veldur stundum streitu, já. Í mörgum tilfellum þarf að umbreyta kennsluefni eða semja það upp á nýtt og færa það á vefform, til dæmis endursamdi ég glæruflokk um [efnið] og talaði inn á glærurnar svo nemendur gætu notað þær í sjálfsnámi.” Kennurum þótti nemendur þurfa viðbrögð við þeim verkefnum sem fyrir þá voru lögð í stað þeirra kennslustunda sem féllu niður í stundatöflu. Einn þeirra segir “Ég lærði fljótlega að það var nauðsynlegt að svara öllum bréfum fljótt svo að nemendur vissu að ég hafði fengið verkefnið frá þeim.
Við öll þessi bréfaskrif náði ég að fylgjast vel með vinnu nemenda og það má segja að það hafi verið miklu auðveldara að fylgjast með vinnu þessa nemendahóps en þeirra bekkja sem ég hitti fjórum sinnum í viku og eftir önnina þekki ég fleiri í þessum hópi vel heldur en í hinum bekkjunum því þau sem kannski eru óframfærin í tímum eru mörg dugleg að láta heyra í sér í tölvupósti þegar þau þurfa hvort eð er að skrifa til kennarans.” Hér kemur fram afar athyglisverður þáttur sem eru nánari tengsl við nemendur sem eru í stöðugu tölvusambandi. Hér má því velta þeirri spurningu upp hvort dreifnám gæti orðið skilvirkara en staðbundið nám fyrir hópa með góðu skipulagi. Á sama tíma má einnig velta fyrir sér hvort það muni þá ekki auka vinnuálag kennarans.
Einn kennari gerði tilraunir með SMS skilaboð í dreifmenntinni voru nemendur ánægðir með þennan valkost “Einn [nemandi] sagði eitthvað á þá leið að það væri miklu betra en t.d. að nota tölvupóst, maður færi ekki í póstinn nema af og til en SMS kæmi á stundinni og enginn gæti vikist undan því að taka við slíkum boðum.”
Námsefni
Aukin vinna kennaranna kom ekki einungis fram í auknum samskiptum við nemendur heldur töldu kennarar að það væri nauðsynlegt að útbúa sjálfir meira efni fyrir nemendur eins og fram kemur hér að ofan. Nokkuð var rætt um hvort skylda ætti kennara sem dreifkenndu að hafa eigin vef til að styðja við námið en flestir kennaranna gerðu með glæsilegum hætti. Einn nemandi segir “það þarf að hafa einn vef með Heimanáminu skráðu á” og endurspeglar þá skoðun nemenda sem kom fram í umræðum að það þyrfti að búa til heildstætt umhverfi fyrir bekkinn á vef þar sem allir áfangar væru tengdir inn. Niðurstaðan var sú að þau gerðu sinn eigin vef og tengdu í vefi kennaranna og eigið efni. Slíkt hefði þurft að skipuleggja frá upphafi en hvort það eru nemendur sem eiga að sjá um slíkt eða einhver annar hlýtur að fara eftir aðstæðum hverju sinni. Nemendur bentu einnig á að gott væri að geta gengið að því hvað þau ættu að gera á einum stað á vefnum og virðist sem að þau séu í raun að óska eftir heildstæðu námsumhverfi s.s. WebCT eða Angel þar sem þau geti gengið skipulega að námsefni, námsáætlun vikunnar (dagsins) og öðrum skilaboðum.
Þrír kennaranna voru með námsefni á vef en einn ekki sá nýtti vefefni frá öðrum kennara. Í einum áfanga voru ekki kennslubækur og ritar kennari í námsáætlun “Engin kennslubók en námsefni eru fyrirlestrar og kynningar kennarans og glærur. Námsefni aðgengilegt á vef...” Greinilegt er að þau hafa lagt mikla vinnu í kennsluefnið en gott kennsluefni sem er aðgengilegt á vef er ein meginforsenda dreifmenntunar. Ekki er hægt að gera þær kröfur til kennara að þeir skrifi verkefni og námsefni fyrir alla áfanga sem þeir kenna innan þess vinnutíma sem þeim er ætlaður við kennslu eins áfanga. Því er nauðsynlegt að styrkja námsefnisgerð á Neti og námsefnisgerð kennara almennt með ríkulegum hætti og gera efnið aðgengilegt öllum þannig að vinna eins nýtist fleirum. Vonandi næst slíkt fram með stórhuga hugmyndum menntamálaráðuneytisins um Menntagátt og stefnu ráðuneytisins en þar segir einmitt:
Til þess að ná fram markmiðum dreifskóla þarf áfram að vinna að því að auka íslenskt efni, einkum námsefni, á Netinu jafnframt því að tryggja aðgengi að þessu efni. (Menntamálaráðuneyti. 2002. Bls. 2)
Ráðuneytið telur eins og þátttakendur í þessu verkefni að til þess að ná fram markmiðum um dreifskóla (sem bjóða dreifmenntun) þurfi fjölbreytt og aðgengilegt námsefni sem tengist námsmarkmiðum námskrárinnar. Þetta ætti því að breytast þegar þessi markmið ráðuneytisins verða að veruleika:
Í hverri námsgrein grunn- og framhaldskóla sé fyrir hendi kennsluefni og
hugbúnaður sem er aðgengilegur á Netinu. (Menntamálaráðuneyti. 2002. Bls. 9)
... aðgengi að menntatengdu efni verði greitt og auðveldi þar með dreifmenntun. Menntamálaráðuneyti. 2002. Bls. 13)
Búast má við því að kennari þurfi alltaf að skapa eitthvað efni sjálfur þó mikið sé til af efni en vinnuálag kennara í dreifnámi ætti að minnka töluvert væri gott aðgengi að góðu námsefni á neti.
Hvaða endurmenntun þarf kennari til þess að styrkja dreifkennslu hans?
Kennarar voru sammála um að kennarar þyrftu símenntun til að geta beitt dreifkennslu á markvissan hátt þar sem upplýsingatækninni er beitt. Mest tala þeir um þekkingu á beitingu hugbúnaðar s.s. póstforrit, glærugerð m.a. tala inn á glærur, vefsíðugerð og forrit sem gera kennara kleift að gera gagnvirkar æfingar. Einnig tala þeir um að þeir sjálfir þurfi að temja sér sjálfstæði og frumkvöðlastarf, ákjósanlegt sé að hafa stöðugt aðgengi að kennslufræðilegri aðstoð. Einn þeirra segir “Að flestu leyti gildir það sama um kennara og nemendur að grunnfærni skiptir miklu máli. Og síðan sjálfstæðið og frumkvöðlaviðhorfið. Láttu mig þekkja það.” Annar segir: “Endurmenntun þarf að vera í boði á öllum önnum og stigskipt þannig að hún henti byrjendum jafnt sem lengra komnum.” Þeir reyna að skilgreina hvað kennari þarf að hafa til að fara að dreifkenna og einn segir “Það fer auðvitað eftir hverjum kennara fyrir sig hvers konar endurmenntun hann hefur þörf á. Kennari sem fer út í dreifkennslu þarf að kunna að nota tölvu, gera vefsíður, skipuleggja póstinn sinn, gera gagnvirk verkefni, nota myndir o.fl. Því meira sem maður lærir í tölvunotkun því betur sér maður þörfina fyrir að læra meira.”
Kennsla á verkfæri er einum mikilvægara en kennslufræðin í upphafi enda má telja að kennarar séu með góðan grunn í almennri kennslufræði þó stundum geti tekið tíma að aðlaga hana þeim verkfærum sem upplýsingatæknin býður uppá. Einn þeirra segir “Nauðsynlegt líka að fylgjast með nýjungum en praktíska dótið er mikilvægara en það kennslufræðilega á þessu stigi.”
Hefur kennsluaðferðafræði kennarans áhrif á hvernig hann dreifkennir og er mismunur á því hvaða vinnuálag tengist mismunandi aðferðum?
Kennararnir voru sammála um að kennsluaðferðafræði kennarans hefði áhrif á bæði hvernig kennslan færi fram í dreifkennslu og einnig vinnuálagi. Þetta er svosem ekkert sérstaklega bundið við dreifkennslu fremur en staðbundna kennslu. Einn kennari segir: “Það er alveg öruggt að kennsluaðferðafræði kennarans hefur áhrif á hvernig hann dreifkennir og á vinnuálag. Ef kennari heldur sömu gömlu aðferðunum og gerir ekkert auka þá ætti þetta að létta álagið, færri tímar og nemendur vinna sjálfir afganginn.”
Gera má ráð fyrir að umbreyting frá staðbundinni kennslu til dreifkennslu taki þó nokkurn tíma og nauðsynlegt sé fyrir kennarann að spreyta sig á sama áfanganum a.m.k. tvisvar, jafnvel þrisvar til að komast að niðurstöðu um hvernig best er að málum staðið. Þá reynslu höfum við ekki þar sem enginn kennaranna hefur keyrt sama námsefni tvívegis í dreifkennslu. Slík reynsla gæti síðan endurspeglast yfir í aðra kennslu, einn kennari segir “Að mínu mati þarf kennari sem tekur að sér dreifkennslu að fara í þó nokkra sjálfsskoðun og reyna að aðlaga námsefnið og kennsluhætti að dreifkennslunni án þess þó að fórna námsmarkmiðunum áfangans. Þetta er mikil vinna fyrir alla sem fara þessa leið hvort sem þarf að búa til mikið af verkefnum eða ekki. Þegar svo þarf að búa til öll aukaverkefni líka þá eykst vinnuálagið enn meira.” Ekki er ólíklegt að álykta að gott sé fyrir kennara að skoða sjálfan sig í starfi með jöfnu millibili hvort heldur sem hann er að dreifkenna eða í hefðbundinni kennslu. Líklegt má þó telja að kennari sem er það áræðinn í starfi að hann er tilbúinn til að gera tilraunir með dreifmenntun sé með gott sjálfstraust í starfi og á þ.a.l. auðveldara með að skoða sjálfan sig sem kennara, hvað gagnist í dreifmenntun, hverju væri gott að breyta og hvað væri ákjósanlegt að prófa.
Kennarar ræddu talsvert hvernig þeir fylgdust með því hvort nemendur stunduðu nám til samræmis við þær kennslustundir sem ekki voru innan hefðbundinna stundatöflu í skólanum. Flestir virtust telja að verkefni sem nemendur skiluðu endurspegluðu best hvort nemendur væru að skila sinni vinnu eða ekki. Þannig má draga þá ályktun að þessir kennarar aðhyllist verkefnabundið nám allavega í dreifmenntun. Þegar nemendur skiluðu verkefnum var um tvennt að velja þ.e. að fara yfir verkefni og senda endurgjöf til baka en einnig var rætt um að ekki væri um sérstaka endurgjöf að ræða heldur fengju nemendur fjarvist í tíma ef þeir ekki skiluðu verkefni. Ekki væri eðlilegt að gefa einkunnir fyrir allt sem væri gert í dreifnámi fremur en hefðbundnu námi. Um þetta voru skiptar skoðanir og einn segir “Ég hef heldur aldrei kunnað þá aðferð að láta nemendur skila en fara ekki yfir verk þeirra. Það þykir mér líka ósanngjarnt gagnvart þeim.”
Einn nemandi segir: “Mér finnst það ágætt eins og það er þ.e. verkefni óskilað=fjarvist. En kennarinn mætti líka minna nemendur á oftar.” hér kemur ekki fram hvort farið er yfir verkefnið eða ekki en vinnureglan virðist falla þessum nemanda í geð.
Breytir dreifnám vinnulagi og vinnuálagi nemenda? Breytir dreifnám áhuga nemenda á námi sínu?
Kennarar í verkefninu voru sammála um að dreifnám sem slíkt væri ekki líklegt til þess að efla áhuga nemenda á náminu. Einn kennari segir “Eftir að hafa tekið þátt í dreifkennslu eina önn er það skoðun mín að það fyrirkomulag efldi ekki áhuga nemenda á námi sínu. Þeir vissu ekki hvað þeir voru að fara út í og gerðu sér væntingar sem voru óraunhæfar...” Einn nemandi segir “Það var ekkert búið að segja mér frá þessu dreifnámi áður en ég fór í þennan bekk, mér er mein illa við það og það veldur bara því að maður stendur sig ver í námi” Annar nemandi segir “En ég er mjög hrifin af því að ráða hvenær ég vinn og vera lítið í skólanum þannig að ég vil endilega halda dreifnáminu áfram.”
Kennarar voru almennt þeirrar skoðunar að nemendur áttuðu sig ekki á því að þau yrðu að stunda nám í sambærilegan tíma og þann sem felldur var niður í hefðbundnum kennslustundum. Ekki er hægt að sjá annað en að kennarar hafi lagt fram skýrar námsáætlanir og útskýrt fyrir nemendum hvernig þeir ætluðu að skipuleggja kennsluna yfir önnina. Einn kennaranna segir um þetta “Það kom í ljós hjá [nemendum] að þau höfðu ekki gert ráð fyrir að þurfa að vinna svona mikið, þau héldu að þau ættu að vera í fríi þegar ekki var kennsla á meðan við kennararnir gengum út frá því að þau ættu að vinna sem samsvarar því sem fellt var úr töflu. Þetta yrði að útskýra vel fyrir nemendum áður en þau taka þátt í dreifnámi.” Þetta tengist umræðunni hér að undan um sjálfstæði og sjálfsaga til náms. Einnig má telja líklegt að það taki nemendur einhvern tíma að temja sér ný vinnubrögð en eins og einn kennari segir: “Meðan nemandinn er óvanur við dreifnám fylgir því aukið álag en um leið og nemendur komast uppá lagið fylgir dreifnáminu hagræði og tímasparnaður.”
Í svörum sumra nemenda kemur fram að þeir bjuggust við auknu heimanámi og verkefnavinnu en eins og einn þeirra segir um væntingar sínar til náms í fartölvubekk þá “hélt ég að heimanámið færi mikið í þessi GRÍÐARLEGU verkefni, en á móti mundi reglulegum kennslustundum fækka (s.s. um 40-60%).” Einnig að það yrði “[m]eira af skemmtilegum hópverkefnum, þar sem a.m.k. einn “tölvukall” gæti leiðbeint hinum í t.d. heimasíðugerð, ritvinnslu o.s.frv.” Annar nemandi segir: “Heimanám = Það er eiginlega bara eins og áður. Það er að vísu mun meira vegna tímanna sem við missum úr og er það þá flest allt unnið á netinu og er það þá ágætt. Annars er það bara eins og áður” Annar nemandi segir um væntingar til setu í fartölvubekk: “Það yrði meira að læra heima en það tæki ekki eins langan tíma.”
Nemendur tala um sjálfsaga í dreifnámi einn segir: “já, maður þarf að beita [sig] aga, í stað þess að fara að gera eitthvað annað þá fer maður að læra heima. Það er meiri heimavinna. Maður þarf að sjá um sig sjálfur í sambandi við sögu áfangann og svoleiðis sem er allt í lagi” Annar nemandi segir “Ég tel að maður þurfi miklu meiri aga í dreifnámi en venjulegu námi því að maður er náttúrulega ekki með kennara sem stendur yfir manni og skipar manni að halda áfram að vinna. Maður þarf bara að vera búin miklum sjálfsaga, metnaði og skipulagsgetu.”
Námsáætlanir og skipulag skipta miklu máli, einn kennarinn segir “Í dreifnámi eru nemendur ekki eins bundnir í kennslustofu og geta því unnið verkefni þegar þeim hentar, þau geta tekið vinnuskorpur og slakað á á milli sem hentar sumum betur. Ég var þó með vissa skiladaga þannig að þetta var ekki alveg frjálst og þeim tókst flestum að laga sig að því. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að setja ákveðnar reglur um vinnulag í upphafi dreifnáms þannig að nemendur viti að hverju þeir ganga og til hvers er ætlast af þeim.” Í dreifnáminu þarf vinnuáætlunin að vera skýr strax í upphafi og með aukinni æfingu mætti telja að forsendur breytist eins og einn kennaranna sagði “ Ég þyrfti að gera aðra tilraun, helst með sama áfanga, þar sem ég gæti lagt línurnar í upphafi og gert nemendum vel grein fyrir því hvað þeir eru að fara út í og þá held ég að dreifnám myndi auka áhuga þeirra.” Einn nemandi segir um þetta sama “Það [dreifnámið] hentar ágætlega, en eins og ég er búin að segja áður þá finnst mér vanta skipulag og það þarf að kynna þetta fyrir okkur, hvernig við eigum að vinna, og hvernig þetta á að vera, þetta er í svo lausu lofti.”
Niðurstöður
Fartölvubekkur og dreifnám:
Mikið hagræði virðist vera af því að nemendur hafa stöðugt aðgengi að eigin fartölvum. Einn nemandi segir þó “Mér finnst dreifnámið frábært. En þó verð ég að viðurkenna að mér finnst ekki vera mjög mikið í þessu dreifnámi sem nemendur sem væru ekki með tölvur gætu ekki gert.” Annar nemandi segir: “ég held að fartölvubekkur sé vel í stakk búinn til að vera í dreifnámi.” Sá kennari sem var með námshóp sem ekki var í fartölvubekk segir: “Reynslan sýndi mér að það er næsta nauðsynlegt í dreifnámi að nemendur hafi fartölvur eða að minnsta kosti mjög mikinn aðgang að einkatölvum og séu jákvæðir gagnvart vinnu með tölvum.”
Þannig má álykta að það sé þægilegt en ekki forsenda fyrir dreifnámi að hafa fartölvu, hinsvegar má fullyrða að án góðs aðgengis að tölvu sé dreifmenntun ómöguleg.
Stundatafla og skipulag skóla
Hefðbundin stundatafla með 40 mínútna kennslustundum hentar fartölvubekkjum illa og þegar fella á niður kennslustundir fyrir fartölvubekk er oft erfitt að mynda götin fyrst eða síðast í degi til að ná samfelldri stundatöflu. Kennarar ræddu líka að það gæti verið hentugt að fjarkenna meira einn hluta annarinnar en annan eftir viðfangsefnum hverju sinni. Einnig þyrfti að skipuleggja vinnusvæði nemenda fyrir hóp- og verkefnavinnu þar sem nemendur geta unnið. Aðstaða þeirra heima fyrir er æði misjöfn til að stunda nám og ekki er hægt að beina hópastarfi á bókasafn þar sem yfirleitt er gert ráð fyrir að nemendur geti lesið í næði. Einn nemandi segir: “Það er náttúrulega fullt hægt að kvarta og heimta breytingar. Þetta hefur samt alls ekki verið slæmt en spurningin er hvort það ætti kannski að bylta náminu algjörlega. Það virkar ekkert svo vel að vinna út frá þessu námskerfi sem hefur verið eins í mörg, mörg ár. Kannski það ætti bara að gjörbylta því hvernig við lærum. Ekki brjóta upp sömu stundatölfu og allir aðrir eru með heldur læra bara út frá öðrum forsendum, fá nýtt kerfi.” Óneitanlega væri afar spennandi að skipuleggja skólastarf í heild út frá dreifmenntun og sjá hvernig það gengi fyrir sig út frá þeim kringumstæðum.
Agi og nám
Bæði nemendur og kennarar í verkefninu voru sammála um að námsagi væri gríðarlega mikilvægur. Einn nemandi segir: “ég held að það þurfi meiri aga. Það þarf að stýra náminu meira.” Misjafnt er hvort þau telja að kennararnir eigi að sjá til þess eða að þau sjálf þurfi að læra að vinna í meira frelsi. Einn þeirra segir: “Ég held að dreifnám henti fartölvubekk ágætlega, maður þarf náttúrulega gríðarlegan aga til þess að heltast ekki úr lestinni og vera með á nótunum, en ég held að það komi samt bara af sjálfu sér.” Enn annar nemandi segir: “Ég tel að maður þurfi miklu meiri aga í dreifnámi en venjulegu námi þvi að maður er náttúrulega ekki með kennara sem stendur yfir manni og skipar manni að halda áfram að vinna. Maður þarf bara að vera búin miklum sjálfsaga, metnaði og skipulagsgetu.” Síðan segir einn “Maður þarf aðeins að aga sjálfan sig til að nenna að læra þessi hellings ósköp í hverri viku” Þetta kemur heim og saman við skoðanir kennara sem lýst er hér að framan.
Vinnureglur
Í verkefninu kom í ljós að nokkrar vinnureglur gætu komið sér vel sérstaklega í dreifnámi. Hér má til dæmis nefna:
q Fjarvist ef nemandi vinnur ekki viðfangsefni fjartímanna. Einhverjir kennarar prófuðu að í stað þess að fara yfir þau verkefni sem nemendur áttu að vinna þá fengju þau fjarvist ef verkefnin væru ekki unnin. Nemendur virtust ágætlega sáttir við þetta fyrirkomulag. Einn nemandi sagði “Mér finnst að það ætti að gefa skróp fyrir að skila ekki verkefnum eins og hefur verið prófað t.d. í íslensku. Þá gera flestir verkefnin.”
q Tímamörk hvenær fyrirmæli eiga að vera komin frá kennara. Nemendur vildu hafa á hreinu að kennarar gætu t.d. ekki komið með fyrirmæli um hvað ætti að gera í kennslustund kvöldið fyrir kennsludag. Þau vildu hafa tímamörk á fyrirmælum frá kennara á Neti. Þau ræddu nokkuð um að þau vildu hafa fyrirmæli á vef í stað þess að fá þau í tölvupósti þá sæju þau á einum stað hvað ætti að gera.
Námstækni
Nauðsynlegt virðist að fara vel yfir með nemendum í upphafi hvernig best er að stunda dreifnám. Einnig virðist nauðsynlegt að kenna þeim að stunda nám með fartölvum t.d. glósutækni í tölvum og námstækni almennt þegar verkefnin eru svo breytt og tölvan aðal vinnutækið. (Sbr. meistaraprófsverkefni verkefnisstjóra um fartölvur í Menntaskólanum á Akureyri). Einn nemandinn segir: “Já það mætti kannski setja mann betur í þetta þegar skólinn byrjar á haustin, bjóða upp á svona tveggja tíma kynningartíma með tölvukennurum skólans þar sem námið yrði útskýrt í smáatriðum og kennararnir segðu hvaða væntingar þeir bæru til nemendanna.” Annar nemandi segir í sinni umsögn: “þá finnst mér vanta skipulag og það þarf að kynna þetta fyrir okkur, hvernig við eigum að vinna, og hvernig þetta á að vera, þetta er í svo lausu lofti.”
Lokaorð
Að lokum vil ég
fyrir hönd okkar sem tókum þátt í þessu verkefni þakka fyrir að þróunarsjóður
menntamálaráðuneytisins styrkti verkefnið og vonum við að reynsla okkar nýtist
öðrum sem hyggja á dreifnám og kennslu.
Heimildir:
Hitchcock, G., og Hughes, D. 1989. Research and the Teacher. Routledge. London.
Menntamálaráðuneytið. 2002. Forskot til framtíðar – Verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins í rafrænni menntun 2001-2003 Reykjavík. http://www.menntagatt.is/forskot.pdf sótt 20. júlí 2002.