Höfundur: Lára Stefánsdóttir, upphaflega skrifað 1990, endurbætt og endurskrifað að hluta árið 2000 og aftur árið 2002. Menntamálaráðuneytið styrkti gerð efnisins árið 1990 og 2002.
Síðustu árin hafa sífellt fleiri upplýsingar verið skráðar í tölvu til hagræðingar s.s. þjóðskrá, sjúkraskrá, sakaskrá, bifreiðaskrá og margt fleira. Nú þykir eðlilegt að til sé þjóðskrá með upplýsingum um alla Íslendinga og fáum dylst að tölvuvæðing léttir mörg störfin. Hægt er að finna búsetu einstaklings, greiðslustöðu á opinberum gjöldum, hvar tekið er út af greiðslukorti svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir að margir nýti tölvunnin gögn eru fáir sem leiða hugann að því hvernig þessar upplýsingar eru settar í tölvu.
Upplýsingar sem á að tölvuvæða þurfa að vera skiljanlegar, skýrar og vel afmarkaðar. Ljóshærði maðurinn á horninu sem er giftur bankastjóranum eru ágætar upplýsingar í fallegu kauptúni fyrir þá sem búa þar. Hinsvegar duga þær engan vegin fyrir tölvuskráningu, þegar þarf að finna ákveðinn mann í ákveðnu landi. Nafn dugar oft ekki til að finna nákvæmlega rétta manninn, ekki einu sinni nafn og heimilisfang. Kennitalan er hinsvegar áreiðanleg skráning þar sem engir tveir hafa sömu kennitölu. Kennitalan er einmitt fundin upp til að auðvelda skráningar í gagnagrunnum.
Skráninganúmer bifreiðar, tegund og árgerð einangra ákveðin bíl betur en að Alma sem stýrir útgerðarfyrirtækinu eigi hann. Líklegt er að allir viti ekki hver Alma er og síðan gæti hún selt bílinn og þá þarf að skilgreina bílinn í bifreiðaskrá upp á nýtt.
Mikilvægt er hvernig upplýsingar eru skipulagðar áður en þær eru settar í gagnagrunn og í raun fara gæði grunnsins eftir því.