Leit á netinu

Til að leita á netinu notum við leitarvélar eins og Leit eða Yahoo en misjafnt er eftir leitavélum hvernig þær meðhöndla og flokka gögn. Því er mjög mismunandi hvaða niðurstöður notandinn fær og því er nauðsynlegt að leita oftar en einu sinni með mismunandi leitarvélum eða gagnagrunnum til að fá sem bestar upplýsingar um það efni sem leitað er að.

Sumar leitavélar flokka allar upplýsingar sem þær komast yfir hvort sem þær eru hagnýtar eða fáránlegar en aðrar leitavélar afmarka sig og reyna að velja efni. Dæmi um leitarvélar sem henta til að leita að afmörkuð efni eru Alta Vista (www.altavista.com) og HotBot (www.hotbot.com). Sífellt eru að koma fram nýjar leitarvélar og verið að hanna nýjar aðferðir og er um að gera að prófa nýjar vélar.

Til eru svokallaðir "Metasearch" leitarvélar sem leita með aðstoð nokkurra, stundum margra, leitarvéla. Athugaðu í listanum hvaða leitarvélar eru með þessa möguleika.

Lýsigögn er íslensk þýðing á orðinu meta-data en orði er notað yfir gögn sem lýsa öðrum gögnum. Margar leitarvélar, til dæmis HotBot, nota lýsigögnin til að meta síður eða skjöl. Þau orð sem höfundur setur í haus á vefsíðunnar lítur leitarvélin á sem lýsigögn og því skiptir máli hvað sett er þar.

Velja þarf vel leitarorð, ef það er of almennt þá er hætta á að fá alltof margar síður sem tengjast ekki nógu vel því sem leitað er að. Ef þú vilt t.d. fá myndir frá Íslandi þá er ekki gott að leita að Ísland eða Iceland. Hér er betra að leita strax að "Ljósmyndir frá Íslandi" eða "Photos from Iceland". Það er betra að hugsa sig um áður en leitarorð er valið til að flýta fyrir leit og gera hana markvissari.

Leitarvélum fylgja mismunandi hjálpartól sem gott er að kynna sér. Oftast fylgir hjálp (Help) sem gott er að nota. Almenn regla er að nota gæsalappir utanum setningar en einnig er hægt að nota tengiorð eins og AND, OR eða NOT. Dæmi væri "Ljósmyndir frá Íslandi" OR "Photos from Iceland".

Auðvitað þarf stafsetningin að vera í lagi og getur þurft að grípa til orðabóka við leit á öðrum tungumálum en rafrænar orðabækur eru til í flestum skólum. Sífellt er verið að þróa þýðingarforrit sem gera okkur kleift að þýða vefsíður og leitarorð. Í framtíðinni verða þau vonandi svo góð að þið lendið ekki í vandræðum en þegar ég ætlaði nýlega að þýða úr ensku yfir í frönsku þá gekk það ekki vel. Setningin var eitthvað á þá leið að ég kenndi í skóla með um 1000 nemendum á aldrinum 16-20 ára og um 100 kennurum. Þýðingin varð þannig að ég kenndi í skóla með um 1000 öldruðum kennurum.

Leit getur verið mjög tímafrek og því er um að gera að setja í gang 2-3 leitarvélar í einu. Einfaldast er að ræsa þann netskoðara sem þú notar, hvort sem það er Netscape eða Internet Explorer, 2-3 sinnum og fara í mismunandi leitarvélar með sömu fyrirspurnina.

Niðurstöðurnar sem þú færð geta skipt hundruðum eða jafnvel þúsundum. Leitarvélin reynir að koma fyrst með þær síður sem passa best við þína leit svo að oftast dugar að skoða 10 - 20 fyrstu síðurnar, eftir það er hætta á að síðurnar tengist ekki mikið fyrirspurninni. Það er betra að halda áfram og leita aftur t.d. með marvissari leitarorðum eða í nýrri leitarvél.

Þegar fundin er síða sem inniheldur það sem þú leitar að getur verið gott að setja á hana bókamerki (bookmark í Netscape en Favorite í Internet Explorer) frekar en að prenta hana út. Athuga þarf hvort bókarmerki geymist á þeirri vél sem þú ert að vinna á, eða heimasvæðinu þínu á móðurtölvunni, því að stundum eru vélar í skólum þannig stilltar að bókarmerkið hverfur þegar næsti notandi tengist inn á vélin. Ef þú getur ekki notað bókamerki t.d. á neti skólans, þá er alltaf hægt að ræsa ritvinnslu (t.d Notepad) og afrita bókarmerkið þangað og geyma í skrá.

© Ásrún Matthíasdóttir Lára Stefánsdóttir 2000